Framsókn í ríkisstjórn, það þolir enga bið

Ekki tók það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar langan tíma að kafsigla skútunni.  Um leið og dyggrar leiðsagnar Framsóknar naut ekki lengur við, þá fór allt fjandans til.  Er nema furða að fólk safnist saman um hverja helgi og heimti, í þúsundavís, að Framsókn komi aftur til bjargar.

Ég legg til að ráðist verði í víðtækt og nútímalegt aðgerðaplan sem miðar að því að efla landbúnað og sjávarútveg og snúa baki við þeirri plast-menningu sem tröllriðið hefur landinu undanfarna áratugi.  

Við þurfum að banna og taka fyrir hluti sem brjóta þjóðina niður og ýta undir bruðl og misrétti.  Hver þarf t.d. innflutt matvæli í stórum stíl, önnur en þau sem við hreinlega getum ekki ræktað sjálf en þurfum nauðsynlega á að halda?  T.d. væri hægt að flytja inn epli og appelsínur, en banna innflutning á öðrum ávöxtum, enda bæta þeir engu við matarmenningu okkar og eru sóun á verðmætum gjaldeyri.  Hér á landi eru kaffihús á hverju götuhorni sem okra á okkur, slíkt er óþarfi og engin ástæða til að púkka upp á slíkt.  

Við búum við alls kyns óþarfa sem við getum vel komist af án, og um leið sparað gjaldeyri landsmanna.  Líf okkar verður innihaldsríkara og betra fyrir vikið.  Eins og félagi minn og skoðanabróðir, Árni Þór Sigurðsson, benti á um daginn þá er hamingja og framtíð landsins fólgin í verndun tungu og menningar, ekki prjáli og efnishyggju.

Íslendingar höfðu það fínt fram undir miðbik síðustu aldar, við vorum öll jöfn og lifðum góðu lífi allt frá landnámi.  Hamingjusamir bændur stunduðu sinn búskap með bros á vör og sælleg börn skoppuðu um tún og engi á meðan hlúð var að gæðum landsins.  Þannig var það í þúsund ár.  Lífið brosti við fólki í sjávarplássum þar sem glaðlegir sjómenn drógu björg í bú kynslóð eftir kynslóð og landsmenn voru upp til hópa hamingjusamir og vel haldnir.  

Það var ekki fyrr en hin ameríska plastmenning ruddist inn í líf okkar að erfiðleikarnir byrjuðu.  Veðurfar versnaði í kjölfar gróðurhúsalofttegundanotkunar landsmanna, sem olli uppskerubresti og sjúkdómum eins og kúabólu og liðagigt.  Þunglyndi lagðist á þjóðina þegar við hættum að deila fögrum kvöldum við söng og bókalestur, og tókum upp sjónvarpsgláp og tölvunotkun.

Nei, nú þarf sterka ríkisstjórn sem getur snúið ofan af þessari óheillaþróun.  Hefja til vegs og virðingar gömlu gildin og afnema menningarlega mengun sem okkur hrjáir með andlegum sem líkamlegum kvillum.  Þjóðin veit því miður ekki hvað hún vill eða hvað er henni fyrir bestu, og því ríður á að fá til valda sterka leiðtoga sem geta ákveðið fyrir þjóðina hvað hún má og hvað ekki.  Svona eins og réttlátur jarðeigandi þarf stundum að aga hjú sín og beina þeim á rétta braut.  Já, það þarf að kjósa sem fyrst. 


mbl.is Staðan er grafalvarleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Einarsson

Það er nú synd Ble-si, því greinin er góð.  Þú hefðir örugglega gott af því að lesa hana og yrðir betri kona fyrir vikið.

Jón Einarsson, 12.11.2008 kl. 15:43

2 identicon

Þú botnar greinilega ekkert í aðdraganda þessa klúðurs fyrst þú heldur að þetta sé ekki Framsókn og Sjálfstæðisflokknum að kenna. Nema þetta sé grín. Lítur þannig út.

Högni (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 15:45

3 identicon

"hamingja og framtíð landsins fólgin í verndun tungu og menningar, ekki prjáli og efnishyggju."

...segir maðurinn sem hlustar á Abba...

Netverji (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 16:19

4 Smámynd: Birgir Gunnarsson

Ef einhver ber ábyrgð með Sjálfstæðisflokknum, þá er það Framsókn. valgerður sagði í gær að mistök hefðu verið gerð áður enn hún var í 5,5 ár sem ráðherra og eftir hennar tíma, yehh right. Sukku og spilling Framsóknar mun ekki gleymast. Afhverju var Finnur Ingólfsson milljaðarmæringur? Ekki er það vegna þess að hann er klár, það mikið er víst. Ætli stjórmálalegt uppeldi hans í Framsókn hafi ekki með það að gera? Framsókn hefur ekki verið annað þekkt enn fyrir spillingi og aftur spillinug. Nei, það versta fyrir þjóðina er að fá Framsókn í ríkisstjórn.

Birgir Gunnarsson, 12.11.2008 kl. 16:20

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Varla er nú fyrirsögn þessara færslu beintengd síðustu skoðanakönnunum Jón minn Einarsson. Né heldur tengist hún afdrifum þessa merkilega flokks- sem þú bendir þjóðinni á - í síðustu Alþingiskosningum.

Ég þekki Framsoknarflokkinn betur en þú því ég var orðinn áhrifamaður í FUF í Skagafirði um fermingu, i formannstíð Magnúsar á Frostastöðum nokkru áður en þú fæddist. Ég var lengi virkur þátttakandi á kjördæmisþingum flokksins og man leiðsögn Steingríms Steinþórssonar, Ólafs Jóhannessonar, Björns á Löngumýri. Stefáns Guðmundssonar, Steingríms Hefmannssonar og fleiri góðra og vandaðra forystumanna í flokknum. Sá Framsóknarflokkur sem þú ánetjaðist var flokkur ómerkilegra hentistefnupólitíkusa á borð við Halldór Ásgrímsson og Finn Ingólfsson sem notuðu flokkinn til að safna þjóðareigum á hendur fárra útvalinna í formi einkavæðingar ásamt því að sölsa dánarbú Sambandsins undir forsjá manna eins og S hópsins og nýta sér eignasjóði Samvinnutrygginga til kollhnísa og heljarstökka inn í útrásarfyrirtæki. Hvar er sá sjóður nú sem átti að "skipta milli" sérvalinna viðskiptavina eftir geðþótta? Báðir vitum við fullvel að sá sjóður er týndur-horfinn á vit gleymskunnar. En þeir sem með hann höndluðu hafa orðið stór nöfn í okkar frábæra nafnasafni undrabarna í fjárvörslu.

Og ég man fullvel þá tíma sem þú vísar til á mektardögum Framsóknarflokks landsbyggðarinnar. Ég man blómlegt mannlíf, uppbyggingu og bjartsýni í sveitum þessa lands. Ég man alla þá lýsingu á blómlegum og vaxandi sjávarþorpum og það gróskumikla mannlíf sem þar þróaðist fyrir þína tíð! Og vel man ég einnig þegar sjávarútvegsráðherrann Halldór Ásgrímsson lagði sína dauðahönd á þessar byggðir með atbeina annara ógæfumanna á þingi.

Íslendingar hafa fengið nóg af Framsóknarflokknum og það er vel að þeir sýna það með atkvæðum sínum og í skoðanakönnunum; loksins! Átökin milli þjóðlegra gilda og spákaupmennsku ómerkinganna eru sýnileg í flokknum þínum og hafa lengi verið. Fulltrúar hinna þjóðlegu gilda voru orðnir tveir á Alþingi en hefur nú fækkað um helming eftir að Bjarni Harðarson yfirgaf þann vettvang. Guðni er einn eftir. Bjarni Harðarson gerði heiðarlega tilraun til að opna augu ykkar með frægu útspili sínu nú á dögunum og með dyggum atbeina minna gömlu vina og fyrrum flokksfélaga í Skagafirði; þeirra manna þar sem aldrei mun bresta djörfung til að berjast í tengslum við góða réttlætiskennd og skilja flestum öðrum betur merkingu hugtaksins manngildi.

Að endingu Jón Einarsson: Íslensk þjóð bíður ekki eftir Framsóknarflokki Valgerðar frá Lómatjörn.

Með kveðju frá gömlum framsóknarmanni sem týndi ágætu stjórmálaafli og lýsir eftir því.

Árni Gunnarsson, 12.11.2008 kl. 17:15

6 Smámynd: Jón Einarsson

Heill og sæll, Árni.  Nei, rétt er það að ég þekki þessar blómadaga, þessi velmektarár, Íslands af afspurn.  Amma mín þekkti mæta vel þessa höfðingja sem þú telur upp og voru margar sögurnar sem hún kunni af útstáelsi með þeim á hennar sokkabandsárum.

Skagafjörðurinn, nágrannasveit mín, er nú annáluð fyrir að vera eitt dyggasta vígi Framsóknar, og er það vel.  En eitt máttu vita, Árni, að þó ég sé ungur að árum er ég aldraður í hjarta og huga, og veit fátt betra en að láta mig dreyma um tíma er Framsókn ræður yfir landi og lýð líkt og forðum daga.  Það er klárt mál að hyggja þarf að þjóðlegum gildum og menningararfi okkar, og ef ekki vill betur tel ég að þurfi með lagabókstaf að útrýma þeirri menningarlegu mengun sem er að leggja ungdóm okkar í rúst, líkt og gert er til að útrýma annars konar mengun.  Ég veit að þú ert mér þar sammála, því fjölbreytni og litskrúðugt mannlíf er mikilvægt, en þá aðeins að það samrýmist okkar sögulega arfi og menningu.  

Ég tek undir það að með Bjarna hverfur einn minna skoðanabræðra af leiksviði stjórnmálanna, og fáir eftir sem eru tilbúnir að standa vörð um það sem er í sannleika íslenskt.  Tungu, matarhefðir, klæðaburð, tal, og trú.  Fyrr en varir verður Ísland eins og það á að vera horfið í hyldýpi "fjöl"menningar og glatað að eilífu.

Til þess að sporna við því þarf að endurreisa hinn gamla Framsóknarflokk, flokk bænda og sjómanna... flokk alþýðunnar.  Lögleiða hin gömlu og góðu gildi og afnema ómenninguna sem skotið hefur rótum.  Það er hið nýja Ísland.

Jón Einarsson, 12.11.2008 kl. 17:51

7 identicon

Ég hélt að framsókn væri búið að gera nóg af sér. Það kom allt fram í bréfinu frá Bjarna. Flokkurinn ætti að segja af sér allur!

Valsól (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband