12.11.2008 | 18:11
Þetta mál mun ekki hafa áhrif á aðildarumsókn Íslands í ESB
Eitt er víst, sama hvað úrtölufólk segir, að það gildir einu hvaða skoðun ESB hefur á deilu okkar um Icesave við Breta, Hollendinga, Belga, og Þjóðverja, það mál mun engin áhrif hafa á aðildarumsókn okkar í ESB.
Auðvitað munu þær þjóðir sem telja sig eiga harma að hefna vegna Icesave sýna umsókn okkar fullan skilning og ekki blanda þessu tvennu saman. Það væri fráleitt. Ég tel t.d. að Eiríkur Bergmann hafi náð að treysta í sessi stuðning Breta og Þjóðverja við umsókn okkar og að hún hljóti snarpa og löðurmannlega meðferð.
Þegar við sækjum um ESB eftir áramót og leggjum fram kröfur um t.d. óskert yfirráð yfir sjávarauðlindunum, fallvatninu, og innflutningi erlends vinnuafls, auk þess að fá undanþágur vegna landbúnaðarafurða (s.s. bann við innflutningi á þeim) og greiðslna í sjóði ESB, að ógleymdum ákvæðum um hvíldartíma bílstjóra, þá verði vel í þær tekið. Annað væri ósanngjarnt og ótækt.
Það myndi koma mér verulega á óvart ef Bretar, Hollendingar, Belgar, og Þjóðverjar myndu setja sig upp á móti umsókn okkar inn í ESB, og jafnvel gagnrýna þessar kröfur okkar, byggt á þessu Icesave máli. Þess vegna finnst mér að samningstaða okkar í þessum ESB viðræðum, mögulegu, sé á engan hátt veikari nú en fyrir ári síðan. Jafnvel sterkari ef eitthvað er.
Það er því mikilvægt að gefa fólki sem er ósammála þessu að ofan ekki lausan tauminn í fjölmiðlum með sínar úrtölur og rangfærslur. Þjóðin á rétt á að vera upplýst um raunverulega samningsstöðu okkar og hún er ljós.
Það er t.d. alveg út í hött, eins og ég heyrði fleygt í dag, að þegar og ef við myndum sækja um í ESB yrðum við að gefa eftir svo að segja allan aðgang að fiskimiðunum og fallvatninu í skiptum fyrir að Bretar, Belgar, Hollendingar og Þjóðverjar myndu falla frá Icesave kröfum (kröfum sem eru víst lagalega óhrekjanlegar, að mati einhverra spekúlanta, því þær eiga að "brjóta" EES samninginn). Að viðhorf þessara þjóða verði það að Íslandi sé ekki treystandi fyrir húshorn. Að við séum eins konar DV í fjölmiðlaflóru heimsins. Það er mikilvægt að fólk átti sig á því hvað slíkar skoðanir eru órökréttar og kjánalegar.
Barroso: Ísland leysi deilumál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vil ekki sjá það að við förum í Evrópubandalagið!
Soffía (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 18:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.